Um okkur

Reiðtúr.is er lítið fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í hestaferðum fyrir litla hópa auk þess að styðja við atvinnuþátttöku fólks með skertastarfsorku

Reiðtúr.is er staðsett á frístundabúinu Akurholti í Reykjavík en þar höfum við haft búsetu frá árinu 2000 eða í 15 ár og stundað þar frístundabúskap sem hefur lengst af samanstaðið af hestum, hænum og hundum. Þó önnur dýr hafi einnig átt þar góða daga. Við leggjum allan okkar metnað í að gera ferðirnar skemmtilegar og fræðandi þannig að eftir sitji þekking á íslenska hestinum, sögu svæðisins og náttúru. Þá erum við stolt af því að taka þátt  atvinnuþróunarverkefni fyrir fólk með einhverfu og önnur þroskafrávik í samstarfi við Specialisterne. Ásamt því að taka þátt í starfsendurhæfingu á vegum VMS og Virk. Þrátt fyrir ungan aldur sonar okkar sem greindist með dæmigerða einhverfu og önnur þroskafrávik á haustmánuðum árið 2012, er okkur það áskynja í umhverfinu að betur má ef duga skal til að efla og auka atvinnumöguleika þessara einstaklinga sem oftar en ekki sjá lífið frá öðru sjónarhorni en við hin. Með því að bæta um betur í þessum málaflokki vinnum við gegn fordómum og stuðlum að fjölbreytileika samfélagsins. Innan þessa hóps eru ótal margir færir einstaklingar sem eiga sér þann draum að fá störf við hæfi og er það trú okkar að allir einstaklingar þurfi að finna til sín og þeirra sé vænst, að dagarnir renni ekki saman í eitt. Hugmyndin af stofnun hestaleigu hefur legið í loftinu í dágóðan tíma enda er staðsetning Akurholts tilvalin þegar horft er til staðsetningar, rétt við borgarmörkin en samt sem áður með óspillta náttúruna allt í kring. Með því að koma í reiðtúr með okkur, færðu ekki einungis tækifæri til að kynnast íslenska hestinum heldur styður þú einnig við atvinnuþátttöku fólks sem hefur jafnan ekki haft starfsmöguleika í takt við sína kunnáttu og færni.

En hver erum við?

Hanna Björk og Helgi Vattnes eru eigendur Reiðtúr.is, sem hafa bæði umgengist hesta frá unga aldri. Auk þess sem Helgi hefur stundað tamningar á eigin hestum. Synir okkar Kristjón Örn, Sigþór  Ari og Tómas Helgi eru taka sín fyrstu skref í hestamennsku, þeir hafa alist upp í kringum hesta og annað dýrahald. Hestarnir sem við notum á leigunni, eru jafnframt reiðhestar fjölskyldunnar. Ásamt okkur hefur litla systir Hönnu Bjarkar, Jónína Sif Eyþórsdóttir sagn- og þjóðháttarfræðingur, tekið þátt í uppbyggingunni á Reiðtúr.is með skipulagningu ferða og safnað saman sagnfræðilegum heimildum um svæðið. Þá hefur hún ásamt eigendum og öðrum starfsmönnum haft veg og vanda með þjálfun og umsjón með hestunum.